Nýjast á Local Suðurnes

Segir bæjarstjóra fara með rangt mál varðandi flutning fatlaðs manns

Málefni fatlaðs manns, sem færður var úr íbúð yfir í lítið herbergi á heimili sem skilgreint er sem heimili fyrir fatlaða einstaklinga í Grindavík, hefur verið töluvert í umræðunni undanfarna daga, eftir að Kristín Þorsteinsdóttir skrifaði grein, þar sem hún fer ófögrum orðum um framkomu bæjarstjóra og félagsmálastjóra Grindavíkurbæjar í garð mannsins. Greinin var birt á vef Grindavík.net og sá Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Grindavík ástæðu til að svara greininni á vef sveitarfélagsins.

Kristín hefur nú ritað aðra grein, eftir að svar Róberts var birt á vef sveitarfélagsins, sem birt er á sama miðli. Þar segir hún bæjarstjóra fara með rangt mál hvað varðar samskipti við foreldra fatlaða einstaklingsins sem um ræðir.

“…orðaskipti milli móður drengsins og bæjarstjóra á þessum fundi voru ekki í þessum fagurgala sem hann lætur líta út fyrir í þessu svari sínu. Móðirin hafði meðal annars áhyggjur af öllu dóti sonar síns og þá sagði hann að það væri ekkert mál og tók sem dæmi, þegar gamalt fólk væri að minnka við sig þá grisjar það bara dótið sitt eða selur, frábær hugmynd eða hvað?” Segir meðal annars í grein Kristínar.