Nýjast á Local Suðurnes

Vona að meirihlutinn vinni áfram í tekjuöflun eða samningum um skuldir bæjarins

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar sem birt var á dögunum er einungis stöðutaka, að mati bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, ekki er gert ráð fyrir að takist að semja við lánadrottna, sem eru að stórum hluta útlendir vogunarsjóðir hinna föllnu banka auk þess sem áætlunin horfir framhjá þeim staðreyndum að hér er eitt öflugasta uppbyggingarsvæði landsins þar sem um 700 milljón kr. tekjur munu koma til bæjarsjóðs á ári, frá árinu 2017. Þetta kemur fram í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks á bæjarstjórnarfundi þann 3. október síðastliðinn.

“Áætlunin er því eingöngu stöðutaka sem sýnir stöðu ef hvorki verður áfram unnið í tekjuöflun eða samningum um skuldir bæjarins. Vonandi er ætlun meirihlutans önnur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn eru sannarlega áfram reiðubúnir að aðstoða við þá vinnu.” Segir í bókuninni.

Sjálfstæðismenn telja það því “gefa auga leið” að þetta getur ekki verið sú áætlun sem samþykkt verður eftir síðari umræðu. Síðari umræða um fjárhagsáætlunina fer fram þann 15. desember næstkomandi.