Nýjast á Local Suðurnes

Auka þjónustu og stuðning við íbúa í viðkvæmri stöðu

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2017-2020 var samþykkt eftir síðari umræðu í bæjarstjórn þann 20. desember síðastliðinn. Það sem einkennir áætlunina er mikil aukning í tekjum, meðal annars vegna bætts atvinnuástands og fjölgunar íbúa, en um leið mikið aðhald og agi í útgjöldum.

Þrátt fyrir mikið aðhald í útgjöldum mun Reykjanesbær auka þjónustu og stuðning við íbúa í viðkvæmri stöðu, s.s. börn, fólk með geðraskanir og fatlað fólk.

Fyrsti liðurinn í þeirri vinnu var undirritun þjónustusamnings á milli Bjargarinnar og Vinnumálastofnunar um starfsendurhæfingu fyrir fólk með geðraskanir. Samningurinn gildir til ársloka 2017.

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri Velferðarsviðs segir að markmiðið með samningnum sé að veita þeim sem Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun ríkisins, heilbrigðisstofnanir eða aðrir viðurkenndir aðilar svo sem velferðarþjónustur sveitarfélaga vísa til verksala, aðstoð með sértækum endurhæfingaraðgerðum og gefa þeim þannig færi á að komast aftur út á vinnumarkaðinn eða skipta um starfsvettvang til dæmis að undangengnu frekara námi.

Úrræðin standa þeim einnig til boða sem hafa takmörkuð atvinnutækifæri eða standa höllum fæti á vinnumarkaði vegna skorts á grunnmenntun eða annarri hæfni og koma af sjálfsdáðum. Björgin mun sinna sértækum endurhæfingaraðgerðum og gefa einstaklingum sem er vísað þangað færi á að komast aftur út á vinnumarkaðinn eða skipta um starfsvettvang til dæmis að undangengnu frekara námi.

„Þjónustan felst meðal annars í því að hvetja þátttakendur til aukinnar sjálfseflingar, virkni og lífsgæða og stuðla það að því að þeir fái notið sín sem fullgildir samfélagsþegnar á forsendum eigin getu og styrkleika,“ segir Díana Hilmarsdóttir forstöðumaður Bjargarinnar. Um er að ræða einstaklingsstuðning, mat á þjónustuþörf, vinnuprófun, þátttöku í virkniúrræði, undirbúa einstaklinginn fyrir vinnu, greina atvinnutækifæri hans, aðstoða hann við atvinnuleit, gerð atvinnuumsókna, eftirfylgni og tímabundin stuðning á vinnustað ef með þarf. Gissur sagði við undirritunina mikilvægt að fólki standi fjölbreytt úrræði til boða.