Nýjast á Local Suðurnes

Kanna möguleika á stofnun húsnæðissamvinnufélags – Kynningarfundur 10. ágúst

Nokkrir íbúar í Reykjanesbæ hafa tekið höndum saman og kanna nú möguleika á því að setja upp húsnæðissamvinnufélag, sem myndi að hluta til leysa þann húnæðisvanda sem ríkir á Suðurnesjum, en eins og fram hefur komið í fréttum eru um 40 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjanesbæ, auk þess sem svipaða sögu er að segja í flestum öðrum sveitarfélögum á svæðinu.

Nokkur húsnæðissamvinnufélög eru rekin hér á landi og er eðli þeirra jafnan þannig að þau eru í eigu allra félagsmanna og opin öllum. Þá er eðli rekstrar slíks félags þannig að í stað þess að ávinningurinn renni til fárra eigenda þá rennur hann til allra notenda, sem jafnframt eru eigendur, í formi veittrar þjónustu og lægri gjalda.

Kynningarfundur -/ stofnfundur húsnæðissamvinnufélags, eða non profit leigufélags, verður haldinn 10. ágúst næstkomandi klukkan 20.00. Staðsetning fundarins hefur enn ekki verið ákveðin, en dagsráin er að mótast og meðal annars mun fulltrúi frá leigjendasamtökunum kynna slíkt fyrirkomulag og sýna mögulegar útfærslur á húsnæði.