Nýjast á Local Suðurnes

Nýttu farartæki IGS við að koma þýfi út fyrir öryggissvæði

Þrír karlmenn, sem handteknir voru vegna stórfellds þjófnaðar á tollfrjálsum varningi frá flugþjónustufyrirtækinu IGS á Keflavíkurflugvelli fyrr í mánuðinum nýttu í einhverjum tilfellum farartæki fyrirtækisins við að koma þýfinu út fyrir öryggissvæði flugvallarins.

Í frétt á Vísi.is kemur fram að upp hafi komist um athæfið við rýrnunareftirlit innan fyrirtækisins um miðjan júlí og var lögregla kölluð til. Rannsókn hennar leiddi í ljós að starfsmennirnir höfðu lengi stundað þjófnað, einkum á nautalundum og lambakjöti, úr frystiklefa flugþjónustufyrirtækisins. Í frétt Vísis kemur einnig fram að umrætt svæði sé undir eftirliti Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli.

Í tilkynningu lögreglu vegna málsins kefur fram að tveir mannanna hafi starfað hjá flugþjónustu á Keflavíkurflugvelli og hafði annar þeirra starfað hjá fyrirtækinu í um ár en hinn töluvert lengur. Vegna starfa sinna höfðu þeir aðgang að inn á flugverndarsvæði flugvallarins. Þriðji maðurinn sem handtekinn var mun svo hafa séð um að koma þýfinu í verð.