Nýjast á Local Suðurnes

Tinna ekki eina dýrið sem fundist hefur grafið undir grjóti – Leita upplýsinga um svipuð mál

Eigendur hundsins Tinnu sem slapp úr pössun rétt fyrir áramót og var leitað í meira en þrjár vikur óska eftir upplýsingum um fleiri dýr sem hafa týnst og síðar fundist við svipaðar aðstæður og Tinna. Ung kona fann Tinnu sem var með 10 kílóa þungan stein yfir höfðinu við smábátahöfnina í Gróf, en aðkoman benti til þess að henni hafði verið komið fyrir þannig af mannavöldum.

Í pistli á vefsíðu Hundasamfélagsins kemur fram að Tinna sé ekki eina dýrið sem hefur fundist í svipuðum kringumstæðum á Suðurnesjunum. Árið 2012 fannst hundur á heiðinni milli Keflavíkur og Sandgerðis þegar hjón gengu fram á svartan ruslapoka sem hafði að geyma hundshræ, en þungum steini hafði verið komið fyrir ofan á höfði hundsins.

Á þeim tíma sagði varðstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum að það væri ljóst að hræið hefði verið þarna í nokkurn tíma, líklega væri það í mánuðum talið. Rétt er að vara við mynd neðst í fréttinni, sem tengillinn vísar á, þar sem höfuðkúpa hundsins sést.

Þá hafa tveir kattaeigendur, sem hafa misst kettina sína við svipaðar aðstæður og Tinnu þ.e.a.s dýrin hafa fundist grafin undir grjóti, sett sig í samband við Andreu, eiganda Tinnu. Andrea óskar því eftir upplýsingum sem fólk kann að hafa um fleiri slík tílfelli – Hægt er að hafa samband með tölvupósti á andrea@23.is