Sjálfsmark tryggði Keflavík jafntefli
Stórleikur þriðju umferðar Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu fór fram í dag þegar Fylkir og Keflavík mættust í Árbænum. Keflvíkingar voru taplausir fyrir leikinn í dag, með einn sigur og eitt jafntefli í deildarkeppninni.
Liðin skiptu með sér stigunum í dag, en leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Það voru þó Fylkismenn sem sáu um markaskorunina í leiknum, en Albert Ingason kom þeim yfir með marki á 44. mínútu. Það var svo Fylkismaðurinn Ásgeir Örn Arnþórsson sem kom knettinum í eigið mark á 84. mínútu, eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 77. mínútu.
Keflvíkingar eru enn taplausir í deildinni og sitja í fimmta sætinu með fimm stig.