Nýjast á Local Suðurnes

Ekki komið til tals að setja upp kynlausa klefa í sundlaugar Reykjanesbæjar

Möguleikinn á að koma upp svokölluðum kynlausum klefum í sundlaugum Reykjanesbæjar hefur ekki komið til tals innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Töluverð umræða hefur verið um slíka klefa í sambandi við málefni transfólks og hefur Reykjavíkurborg þegar sett upp kynlausa klefa í þremur sundlaugum, Laugardalslaug, Árbæjarlaug og Grafarvogslaug og til stendur að taka slíka klefa í gagnið í öllum sundlaugum borgarinnar.

Hafþór Barði Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar sagði í samtali við Suðurnes.net að þessi möguleiki hafi ekki komið til tals hjá Reykjanesbæ, en hinsvegar væri boðið uppá einkaklefa í Vatnaveröld, fyrir þá sem það kjósa.

Merkingar um kyn voru fjarlægðar á salernum í Akurskóla fyrr á þessu ári, en það var gert þar sem trans einstaklingar og einstaklingar af óræðu kyni stunda nám við skólann.