Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvíkingar verða “Trítaðir í druslur” í kvöld – Tryggðu þér miða á lokahófið!

Körfuknattleiksfólk úr Njarðvíkum mun ljúka tímabilinu með stæl í kvöld, en þá fer lokahóf félagsins fram í safnaðarheimilinu í Innri-Njarðvík. Njarðvíkingar eru þekktir fyrir allt annað en rólegheit þegar kemur að veisluhaldi, þannig að það má búast við að mikið verði um dýrðir.

Soho sér um að metta mannskapinn og ræðumaður kvöldsins verður ekki af verri endanum, en körfuboltasérfræðingurinn Tómas Þór Þórðarson, blaðamaður á Vísi og Fréttablaðinu mun væntanlega fara yfir tímabilið á léttum en gagnrýnum nótunum. Þá verða að venju veittar hinar ýmsu viðurkenningar.

Gunnar Örlygsson formaður Kkd. Njarðvíkur er ánægður með árangurinn á árinu, en Njarðvíkingar féllu sem kunnugt er úr leik í undanúrslitum Dominos-deildarinnar eftir æsispennandi úrslitarimmu gegn KR-ingum. Gunnar sagði liðið setja stefnuna mun hærra fyrir næsta tímabil.

“Í kvöld munum við gera okkur glaðan dag og kveðja eftirminnilegt tímabil. Og setjum stefnuna á gullið að ári. Við erum í þessu til að ná árangri en um leið eigum við öll samleið sem býr til ómetanlegar minningar, og lokahófið er flottur vetvangur til þess. Njarðvíkingar verða trítaðir í druslur í kvöld.” Sagði Gunnar á léttu nótunum.

Miðaverði er stillt mjög í hóf, aðeins 3.000 krónur og er hægt að tryggja sér miða með því að hringja í Gunnar í síma 864 2200. Þá er vert að geta þess að Njarðvíkingar hafa tryggt sér þjónustu Kjartans Atla Kjartanssononar við veislustjórnina í kvöld, en hann er sem kunnugt er stjórnandi Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport.

Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu Njarðvíkinga.