Nýjast á Local Suðurnes

Grunnskóli Grindavíkur tekur þátt í verkefninu Lítill skóli – margir möguleikar

Grunnskóli Grindavíkur tekur þátt í verkefninu Lítill skóli – margir möguleikar  / Small schools – Big Opportunities

Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að nemendur kynnist nemendum frá Danmörku, Færeyjum og Lettlandi, menningu þeirra, tungumáli og sérstöðu. Verkefnið er til tveggja ára og felur í sér nemendaheimsóknir til allra landa. Í hverju landi munu nemendur vinna saman að verkefnum sem tengjast ævintýrum, listum, dansi, söng og snjalltölvum.

Nemendur Grunnskóla Grindavíkur fræðast um nærumhverfi sitt og skoða það í samhengi við hinn stóra heim. Þeir skoða hvaða tækifæri liggja í nærumhverfinu samanborið við önnur lönd. Verkefnið á að hjálpa nemendum að sjá að þeir geti sett markið hátt og haft trú á sér úti í hinum stóra heimi því að litlir skólar hafa marga möguleika.

Framundan er ferð til Gislev Friskole á Fjóni í Danmörku dagana 4.-9. október. Þar munu nemendur m.a. kynnast skáldinu H. C. Andersen og leika leikritið Hans klaufi á dönsku ásamt nemendum frá hinum löndunum. Nú eru nemendur Grunnskóla Grindavíkur að vinna tvö verkefni sem þeir ætla að sýna í Gislev. Annars vegar er það kynningarmyndband um Grindavík og hins vegar stuttmynd um Hans klaufa.

Verkefnið er styrkt af Nordplus Junior sem er menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar. Markmið menntaáætlunar er að stuðla að samstarfi og gæðum í menntun á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum, segir á heimasíðu sveitarfélagsins