Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær býður upp á eineltisfræðslu fyrir nemendur í eldri deildum grunnskóla

Fjölmargir nemendur vinnuskóla Reykjanesbæjar sóttu fyrirlestur hjá Páli Óskari í sumar

Íþrótta- og tómstundaráð hefur samið við forsvarsmenn Marita fræðslunnar um eineltisfræðslu fyrir alla nemendur í 7. – 10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar.

Verkefninu „Þolandi og gerandi – frá sjónarhorni beggja“ er ætlað að auka skilning á einelti, draga úr einelti og vera sem verkfæri fyrir bæði kennara og foreldra í forvörnum gegn einelti.

Sýnd er ný leikin heimildarmynd um æsku Páls Óskars Hjálmtýssonar, þar sem fram kemur mikið einelti sem hann varð fyrir í grunnskóla frá 7 ára til 14 ára aldurs.

Anna Steinsen Dale Carnegie þjálfari fer yfir eineltishringinn og skoðar hlutverk hvers og eins í hringnum. Þar á eftir er skoðað hverjar séu helstu birtingamyndir eineltis og hvar einelti fari helst fram. Anna Steinsen og Magnús Stefánsson sjá um að setja þá, sem fræðsluna sitja, inn í hugarfar þess sem fyrir eineltinu verður og svarar fyrirspurnum þar að lútandi.

Magnús Stefánsson fer yfir hugarfar og bakgrunn geranda í eineltismálum og notar þar sína eigin reynslu af sinni æsku sem gerandi í eineltismáli og svarar fyrirspurnum þar að lútandi.
Snædís Birta Ágeirsdóttir 15 ára segir hvernig líf hennar hefur gjörbreyst til hins betra eftir að hafa upplifað mikið einelti.

Verkefninu er ætlað að auka skilning á orsök og afleiðingu eineltis og sýna fram á hvernig báðum aðilum líður oft illa í því ferli.