Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík á toppnum í Dominos-deildinni – Stórt tap hjá Njarðvík

Keflavíkurstúlkur halda áfram að gera það gott í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik, en liðið lagði Val að velli á heimavelli í kvöld. Grindvíkingar lögðu Snæfell að velli eftir framlengdan leik, á meðan Njarðvíkingar töpuðu stórt í Borgarnesi.

Leikurinn í Keflavík var jafn frá upphafi til enda, en Keflvíkingar lönduðu 84-81 sigri eftir æsispennandi lokasekúndur og tróna á toppi deildarinnar að loknum sex umferðum. Dominique Hudson skoraði 26 stig fyrir Keflavík og Emilía Ósk Gunnarsdóttir, sem átti frábæran leik í kvöld skoraði 21.

Grindavíkurstúlkur þurftu framlengingu til að tryggja sér sigur á Snæfelli í Mustadhöllinni í Grindavík í kvöld. Lokatölur eftir mikinn spennuleik, 69-66. Ashley Grimes var stigahæst Grindavíkurliðsins með 24 stig.

Njarðvíkurstúlkur fóru heldur betur í fýluferð í Borgarnes, en eftir ágæta byrjun í deildarkeppninni tapaði liðið gegn Skallagrími í kvöld með 33ja stiga mun, 85-52. Carmen Tyson-Thomas skoraði 13 stig fyrir Njarðvíkinga og María Jónsdóttir skoraði 9.