Nýjast á Local Suðurnes

Fáir mæta á heimaleiki Keflavíkur – Tekjutapið hleypur á milljónum króna

Um 250 manns mæta að meðaltali á heimaleiki Keflavíkur í Inkasso-deildinni í knattspyrnu, samanborið við tæplega 1.000 manns tímabilið á undan, þegar liðið lék í Pepsí-deildinni. Liðið sem situr í þriðja sæti deildarinnar um þessar mundir hefur þótt leika skemmtilega knattspyrnu á tímabilinu og hefur sem stendur skorað næst flest mörk allra liða í deildinni.

Fækkun áhorfenda á leiki liðsins hefur óneitanlega í för með sér töluvert tekjutap fyrir knattspyrnudeildina, sem einnig rekur öflugt barna- og unglingastarf, auk kvennadeildar og segir Jón Ben. formaður deildarinnar tekjutapið hlaupa á milljónum króna.

“Ég myndi hiklaust segja að tekjutapið sé  á bilinu 4-5 milljónir króna á milli ára i Pepsí og Inkasso-deildunum.” Sagði Jón.

Keflvíkingar hafa reynt að bæta umgjörðina í kringum leikina í sumar, með ýmsum uppákomum, til að trekkja stuðningsmenn að.

“Við erum jafnt og þétt að bæta umgjörðina kringum leikina. Grillum hamborgara og trekkjum í góðan gír fyrir leik. Það er gaman og hefur lagst vel í þá sem hafa verið fastagestir á leikjum okkar í sumar.” sagði Jón.

Liðið leikur næst í kvöld  klukkan 18.30, gegn efsta liði deildarinnar, KA á Nettóvellinum í Keflavík og segir Jón að ekkert annað komi til greina en sigur, ætli liðið að eiga möguleika á að komast upp um deild.

“Það er ljóst að okkar menn þurfa sigur í þessum leik ef við ætlum að taka alvöruþátt í toppbaráttunni í deildinni.  Það liggur því mikið við að við mætum öll og styðjum strákana.” Sagði Jón.

Þá er sérstaklega tekið fram í auglýsingu fyrir leikinn í kvöld að stuðningurinn í Grindavík hafi verið stórkostlegur og að í kvöld verði sem fyrr boðið upp á grillaða hamborgara, auk þess sem Eysteinn Hauksson muni kíkja á stuðningsmenn í kvöld og fara yfir leikinn og baráttuna sem framundan er í Inkasso-deildinni.