Nýjast á Local Suðurnes

Reynismenn stefna á að komast í 8 liða úrslit – Taka á móti Njarðvík b í dag

Völlurinn í Sandgerði er klár undir átök dagsins

Það má búast við hörku körfuboltaleik í Sandgerði klukkan 16 í dag þegar heimamenn í Reyni taka á mót sterku B-liði Njarðvíkinga. Reynismenn eru um þessar mundir í neðsta sæti fyrstu deildar þar sem þeir hafa ekki unnið leik á tímabilinu og því til mikils að vinna fyrir þá að komast í 8 liða úrslit bikarkeppninnar.

B-lið Njarðvíkinga hefur hinsvegar unnið alla leiki sína til þessa í ár og er sem stendur í öðru sæti 2. deildar eftir fjórar umferðir með 8 stig.

B-lið Njarðvíkinga hefur stillt upp sterku liði í vetur, meðal annars hafa þeir Páll Kristinsson, Sverrir Þór Sverrisson, Teitur Örlygsson og Halldór Karlsson leikið með liðinu í vetur auk þess sem Friðrik Rúnarsson hefur stjórnað einhverjum af leikjum liðsins. Orðið á götunni er að liðskipan verði með sterkara móti í dag.

Þjálfari Reynismanna er Njarðvíkingurinn Ingvi Steinn Jóhannson, hann segir öll lið Njarðvíkinga sterk í körfubolta en setur stefnuna á sigur: “Auðvitað stefnum við á sigur. En það verður að taka á því til að sigla því í höfn.

Lið frá Njarðvík eru alltaf sterk hvort sem það er aðallið eða B-lið. Hef þannig lagað ekki áhyggjur af því heldur veit ég að hverju við göngum. Þetta eru strákar sem virkilega kunna körfubolta.” Sagði Ingvi Steinn.

Eins og áður sagði hefst klukkan 16 í dag í íþróttahúsinu í Sandgerði og er um að gera að mæta á þennan leik því búast má við mikilli báráttu og hörku skemmtun.