Nýjast á Local Suðurnes

Meira en helmingur ökumanna notaði síma undir stýri á Grindavíkurvegi

Atvik sem átti sér stað á Grindavíkurvegi á dögunum vakti Knattspyrnuþjálfarann Óla Stefán Flóventsson til umhugsunar um farsímanotkun ökumanna, en samkvæmt Fésbókarfærslu sem hann birti, var hann að aka Grindavíkurveginn þegar bifreið sem kom úr gagnstæðri átt var komin yfir á rangan vegarhelming og stefndi beint á hann. Ökumaður bifreiðarinnar, sem var að lesa á símann við aksturinn, áttaði sig á aðstæðum og náði að sveigja yfir á réttan vegarhelming áður en slys hlaust af.

Atvikið átti sér stað um 14 km frá Grindavíkurafleggjara við Reyjanesbraut og ákvað Óli Stefán að telja þá bíla þar sem augljóst var að ökumenn voru að notast við símann, það sem eftir var leiðarinnar. Samkvæmt talningu hans voru 8 af þeim 15 bílstjórum sem hann mætti augljóslega að notast við síma undir stýri.

Ég keyrði Grindavíkurveginn á dögunum á leið minni í Reykjavík. Þegar að ég var að keyra út úr Grindavíkinni tók ég eftir að bíllinn sem að var að koma á móti mér var að koma yfir á minn vegarhelming. Ökumaðurinn var með augun föst niður á símann og áttaði sig ekki á þessu en leit svo upp og kippti honum yfir aftur áður en hann hamraði á mig. 

Þetta fékk mig til að hugsa um hversu algengur þessi ósiður er og hversu alvarlegar afleiðingar þetta getur haft. Ég las einhverstaðar að ef þú lítur niður á símann í fimm sekúndur og ert að keyra á 100 km hraða keyrir þú 100 metra með augun á símanum. 

Eftir þetta atvik þá ákvað ég að telja þá bíla fram að Grindavíkur afleggjaranum (14 km leið) og sjá hversu margir voru augljóslega í símanum. Af 15 bílum sem ég mætti var augljóst að 8 ökumenn voru annað hvort að tala í símann eða að lesa á hann. Segir Óli Stefán á Facebook.

Vefmiðillinn Nútíminn birti á dögunum myndband sem tekið var við fjölfarin gatnamót í Reykjavík, þar sést glögglega að það er ótrúlegur fjöldi fólks sem notast við símtæki undir stýri, í umfjöllun Nútímans um málið kemur fram að engin íslensk tölfræði sé til yfir hlutfall slysa sem verða vegna farsímanotkunar undir stýri en samkvæmt nýlegum breskum rannsóknum (National Safety Council) verður fjórða hvert umferðarslys vegna farsímanotkunar.