Nýjast á Local Suðurnes

Fjöldi meta féll á Íslandsmóti ÍF í sundi í Reykjanesbæ um helgina

Thelma Björg Björnsdóttir - Mynd: Íþróttafélag fatlaðra

Fjögur ný Íslandsmet litu dagsins ljós á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í sundi í 50m laug, sem haldið var í Vatnaveröld í Reykjanesbæ um helgina.

Tvö metanna komu á laugardeginum en þar voru þær Sandra Sif Gunnarsdóttir og Sonja Sigurðardóttir að verki. Næstu tvö met komu á sunnudeginum og féllu þau bæði í boðsundi.

Sandra Sif setti nýtt Íslandsmet í 200m skriðsundi í flokki S13 (sjónskertir) er hún synti á tímanum 2:59,66 mín. Sonja setti svo nýtt Íslandsmet í 100m baksundi í flokki S4 (hreyfihamlaðir) er hún synti á tímanum 2:15,88 mín.

Í boðsundinu á sunnudag setti sveit Fjarðar nýtt met í 4x100m skriðsundi í flokki S14 (þroskahamlaðir) en tími sveitarinnar var 4.52,79 mín. Sveitina skipuðu Ásmundur Þ. Ásmundsson, Ragnar Ingi Magnússon, Adrian Erwin og Róbert Ísak Jónsson.

Seinna metið í boðsundinu var sett af ÍFR í flokki hreyfihamlaðra í 4x50m skriðsundi en sveitin kom í bakkann á tímanum 3:02,63 mín. Sveitina skipuðu Sonja Sigurðardóttir, Thelma Björg Björnsdóttir, Guðmundur Hákon Hermannsson og Guðmundur Karlsson.