Nýjast á Local Suðurnes

Keflavíkurstúlkur komnar í undanúrslit í Powerade-bikarkeppninni

Keflavíkurstúlkur eru komnar áfram í undanúrslit Powerade-bikarkeppni kvenna eftir  stórsigur á Skallagrím, 93-69. Marín Rós Karlsdóttir stýrði liðinu í leiknum ásamt Sigurði Ingimundasyni eftir að Margréti Sturlaugsdóttur var sagt upp störfum í gær.

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik, þar sem Keflvíkingar höfðu betur í fyrsta leikhluta 22-19 og Skallagrímur í þeim næsta, 16-17 og staðan því 38-36 í háfleik, heimamönnum í vil.

Jafnræði var einnig með liðunum í þriðja leikhluta en Keflavíkurstúlkur höfðu þó frumkvæðið og leiddu að honum loknum 62-55. Keflavíkurliðið átti svo skínandi leik í lokaleikhlutanum, þar sem þær stungu Skallagrímsstúlkur hreinlega af, skoruðu 31 stig gegn 14 og sigruðu leikinn örugglega, 93-69.

Melizza Zorning var stigahæst hjá Keflavík með 22 stig, en Sandra Lind Þrastardóttir kom næst með átján stig.