Stjarnan lagði Njarðvík í Ljónagryfjunni – Bonneau með flotta endurkomu

Stjarnan landaði sanngjörnum sigri í gegn Njarðvíkingum í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld, 83-94, en leikið var í Ljónagryfjunni.
Stjörnumenn byrjuðu leikinn af krafti og náðu fljótt góðu forskoti, Njarðvíkingar náðu þó aðeins að koma til baka fyrir lok fyrsta leikhluta og munaði þar mest um frábæran leik Stefan Bonneau, sem var í liði heimamanna í kvöld. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 19-29. Logi Gunnarsson átti svo flottan annan leikhluta fyrir Njarðvíkinga og skoraði 16 stig, Njarðvíkingar náðu þar að minnka muninn í tvö stig, 45-47.
Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn eins og þeir byrjuðu leikinn, af miklum krafti og virtust hafa góða stjórn á leiknum. Stefan Bonneau kom þá aftur sterkur inn og hélt smá spennu í þessu fyrir heimamenn og minnkaði muninn í fjögur stig, 70-74 með flautukörfu í lok þriðja leikhluta. Stjarnan hafði hins vegar völdin í lokaleiklutanum og landaði ellefu stiga sigri, 83-94.
Stefan Bonneau skoraði 28 stig fyrir Njarðvíkinga og Logi Gunnarsson 23.