Nýjast á Local Suðurnes

Höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu og Tollstjóra – Vann í héraði en tapaði fyrir Hæstarétti

Hæstiréttur sýknaði í gær íslenska ríkið og embætti Tollstjóra af kröfum fyrrverandi starfsmanns sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli um greiðslu frítökuréttar vegna starfa sinna fyrir embættið. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninum í vil árið 2016, en þeim dómi var áfrýjað.

Forsaga málsins er sú að starfsmaðurinn höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu og Tollstjóra þar sem hann krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að hann hefði áunnið sér frítökurétt samkvæmt ákvæðum í kjarasamningi vegna starfa sinna sem tollvörður hjá embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli á árunum 2001 til 2005.

Starfsmaðurinn hafði starfað í afleysingum sumarið 2001 og 2002 en mun síðan hafa starfað samfellt sem tollvörður frá maí 2003. Hann sendi fyrirspurn með tölvupósti til embættisins í nóvember 2008 þar sem hann fór þess á leit að reiknaður yrði frítökuréttur hans frá því hann hóf störf hjá embættinu á árinu 2001 en því bréfi var svarað samdægurs þar sem fram kom að sá frítökuréttur sem hann taldi sig eiga væri ekki fyrir hendi.

Í dómi Hæstaréttar í gær kom fram að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að maðurinn hefði hreyft við athugasemdum við launauppgjör til sín þegar hann lét af störfum um haustið á árunum 2001 og 2002, en við starfslok hefði borið að gera upp frítökurétt með sama hætti og orlof. Þá yrði ekki séð að hann hefði hreyft andmælum við fyrrgreindum tölvupósti fyrr en með bréfi lögmanns hans til fjármálaráðuneytisins tveimur árum síðar. Þetta athafnaleysi mannsins benti ekki til að stofnast hefði frítökuréttur í starfi hans. Jafnframt hefði hann ekki getað um árabil látið átölulaust hvernig staðið var að uppgjöri gagnvart honum í þessu tilliti í trausti þess að geta löngu síðar haft uppi kröfu sína þegar mun örðugra var að leggja mat á hvort fyrir hendi hefðu verið aðstæður sem stofnuðu til frítökuréttar samkvæmt þeim ákvæðum sem um hann giltu eftir kjarasamningi. Loks var litið til þess að á því tímabili sem kröfugerð mannsins tók til hefði hann tekið svokallað áunnið leyfi sem hann hefði ekki gefið neinar skýringar á.

Var maðurinn því ekki talinn hafa sýnt fram á að hann ætti uppsafnaðan og óuppgerðan frítökurétt frá umræddu tímabili. Voru Íslenska ríkið og Tollstjóri því sýknaðir af kröfum mannsins.

Málið var tekið fyrir í Hérðasdómi Reykjavíkur árið 2016, en sá dómur dæmdi manninum í vil, í vel rökstuddum dómi, en dómurinn var á þá leið að starfsmaðurinn fyrrverandi hafi áunnið sér 250,72 klst. frítökurétt samkvæmt grein 2.4.5 í kjara­samn­ingi Toll­varða­félags Íslands og fjár­mála­ráðherra vegna starfa sinna hjá embætti Sýslu­manns­ins á Kefla­víkur­flug­velli á tíma­bilinu 27. maí 2003 til og með 11. des­em­ber 2005 og voru stefndu, íslenska ríkið og Tollstjóri, dæmd til að greiða stefnanda óskipt 1.400.000 kr. í máls­kostnað. Þeim dómi var snúið af Hæstarétti í gær, en málskostnaður felldur niður.

Hér má sjá dóma Héraðsdóms og Hæstaréttar í heild sinni.