Nýjast á Local Suðurnes

Fluttu fatlaðan einstakling úr íbúð vegna skorts á íbúðum í félagslega húsnæðiskerfinu

Bæjarstjórinn í Grindavík, Róbert Ragnarsson, tók ákvörðun um að flytja fatlaðan einstakling úr íbúð yfir í lítið herbergi á heimili sem skilgreint er sem heimili fyrir fatlaða einstaklinga. Þetta var gert vegna skorts á íbúðum í félagslega húsnæðiskerfinu.

Fjallað var um málið í aðsendri grein á vefsíðunni Grindavík.net, en þar eru rakin samskipti foreldra fatlaða einstaklingsins við bæjarstjóra og félagsmálafulltrúa sveitarfélagsins.

“…ég í fáfræði minni hélt að öll svona mál þyrftu að fara í gegnum nefndina en ekki að starfsmenn félagsmála gætu bara tekið svona ákvarðanir einir og sér. En hvað sem öllu líður er búið að brjóta stórlega á þessum fatlaða manni það er hans réttur að búa í íbúð á sambýlinu. Það er verið að fórna einni manneskju fyrir aðra. Fatlaðir hafa sama rétt og ég og þú. Svo er stórfurðulegt að setja heilbrigðan einstakling á sambýli.” Segir í greininni, sem birt var á Grindavik.net.

Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Grindavík birti svarbréf við greininni á vefsíðu sveitarfélagsins, þar sem hann fer yfir málið frá sjónarhorni Grindavíkurbæjar, en þar kemur fram að ákvörðun um flutning hafi verið tekin af honum.

“Bæjarstjóri tók þá ákvörðun um að taka þær tvær íbúðir sem skilgreindar voru sem almennar á Túngötunni í notkun í félagslega húsnæðiskerfinu. Það var gert í samráði við sviðsstjóra og stjórnendur í málefnum fatlaðra. Í annarri íbúðinni bjó einstaklingur með fötlun. Honum var boðið að flytja sig úr íbúðinni yfir í aðra í sama húsi. Hún er vissulega minni, en þjónustustigið er það sama. Haft var samráð við hann um málið. Hann býr nú í minni íbúð í sama húsi. Móðir hans kom á fund bæjarstjóra sem skýrði málið fyrir henni, og hvatti hana til að leita eftir aðstoð réttindagæslumanns fatlaðra ef hún teldi brotið á rétti sonarins. Því miður er það þannig að fólk sem býr í félagslega húsnæðiskerfinu getur þurft að sæta flutningi milli íbúða í kerfinu ef aðstæður breytast. Á það bæði við um fólk með fötlun og aðra.” Segir í svari bæjarstjóra.