Nýjast á Local Suðurnes

Lögreglumenn og lögfræðingar á meðal viðskiptavina kjötsmyglara

Lögreglumenn, slökkviliðsmenn, lögfræðingar og blaðamenn eru á meðal þeirra sem keyptu kjöt sem stolið var af starfsmönnum flugþjónustufyrirtækis á Keflavíkurflugvelli og selt á svörtum markaði. Mennirnir notuðust meðal annars við faratæki flugþjónustufyrirtækisins við verknaðinn.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í opinskáu viðtali blaðamannsins Atla Más Gylfasonar við Vísi.is, en Atli Már var á meðal þeirra sem handteknir voru vegna málsins.

„Þetta voru þó nokkrir kassar sem ég seldi, því að um leið og fólk var komið á bragðið og áttaði sig á því hversu hagstætt verðið var vildi það meira. Til að undirstrikunar því að ég hafði ekki hugmynd um að þetta kjöt væri þýfi, þá seldi ég lögreglumönnum þetta kjöt. Bæði á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu; slökkviliðsmönnum, útvarpsmönnum, blaðamönnum seldi ég þetta kjöt. Ég seldi ritstjórum þetta kjöt, landsliðsmönnum í íþróttum og ég seldi líka Jóni og Gunnu út í bæ þetta kjöt. Og gaf fólki sem undir venjulegum kringumstæðum hefur ekki ráð á að smakka svona kjöt. Í þessum hópi voru líka verkamenn, lögfræðingar, framkvæmdastjórar, eigendur fyrirtækja.“ Segir Atli Már.

Atli Már fer yfir sinn hlut í málinu í viðtalinu á Vísi.is, en hann segir aðkomu sína að málinu lítilvæga, hann hafi ekki vitað að um stórfellt þjófnaðarmál hafi verið að ræða og meðal annars hjálpað lögreglu við að bera kjötið, 162 kíló, út í bíl, auk þess sem hann hafi frá upphafi verið reiðubúinn í að aðstoða lögreglu við að leysa málið.

„Þeir voru ekki með neina leitarheimild. Það vildu þeir ekki gefa upp til að byrja með. En, ég þráspurði þá um hvað málið snérist og að lokum fékk ég að vita að þetta snérist um einhverja matvöru og þá kviknaði loks á perunni hjá mér. Og ég bauð þá velkomna inn. Hjálpaði þeim meira að segja að færa kjötið úr frystinum, í kassa og bar þetta út í lögreglubíl með þeim. Og hef frá þeim degi verið boðinn og búinn að hjálpa til við að upplýsa þetta mál.” Segir Atli Már við Vísi.is