Samráðstímabili Stakksbergs vegna kísilvers lýkur í dag
Stakksberg, eigandi kísilvers í Helguvík, hefur undanfarnar vikur haldið úti samráðsgátt á vef sínum þar sem íbúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum hefur staðið til boða að senda inn athugasemdir við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar vegna endurnýjunar verksmiðjunnar. Samráðstímabilinu lýkur á hádegi í dag, 24. september og er hægt að senda inn athugasemdir þangað til.
Á vefsíðunni kemur fram að með samráðsgáttinni vilji fyrirtækið stuðla að auknu samráði við almenning, umfram það sem lög og reglur gera ráð fyrir. Með auknu samráði vonast Stakksberg til þess að fram komi athugasemdir frá almenningi sem stuðli að betri og vandaðri frummatsskýrslu. Samráðgátt Stakksberg sækir fyrirmynd sína í samráðsgátt stjórnvalda, samradsgatt.is.
Öllum er frjálst að senda inn athugasemd eða ábendingu. Til að senda inn athugasemd eða ábendingu þarf að skrá sig inn með innskráningarkerfi island.is, með Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Athugasemdir eru að birtar jafnóðum og þær berast, og búið er að ganga úr skugga um að þær innihaldi ekki ólöglegt, ósæmilegt eða höfundarréttarvarið efni. Athugasemdir í samráðsgátt Stakksbergs eru birtar undir nafni og eru á ábyrgð þess sem sendir athugasemd.
Að samráðstímabili loknu er gerð grein fyrir úrvinnslu athugasemda með samantekt á síðu hvers máls. Auk þess mun samantekin fylgja sem viðauki við frummatsskýrslu sem send verður Skipulagsstofnun. Þegar frummatsskýrslu hefur verið skilað til Skipulagsstofnunar verða mál á samráðsgátt Stakksbergs, ásamt athugasemdum og öðru innsendu efni, tekin úr birtingu.