Nýjast á Local Suðurnes

Yfir 2000 skjálftar

Skjálftahrina hófst 27. september SV af Keili. Skjálftarnir í hrinunni eru staðsettir í norðurenda kvikugangsins sem myndaðist fyrr á árinu leiddi til eldgoss við Fagradalsfjall. Í dag hafa um 2.000 skjálftar mælst í hrinunni það sem af er, 6 af þeim hafa verið yfir 3 að stærð. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu Almannavarna.

Enginn gosórói mælist, en skjálftavirknin í þessari hrinu er áþekk því sem sást við Fagradalsfjall í aðdraganda eldgossins þar. Á þessu stigi er hinsvegar ekki hægt að útiloka að skjálftarnir getir verið vegna spennubreytinga á svæðinu, en ekki vegna kvikuhreyfinga.

Nýjustu mælingar á jarðskorpuhreyfingum sýna engin skýr merki um að kvika sé við það að brjóta sér leið til yfirborðs á slóðum skjálftahrinunnar. Það útilokar hinsvegar ekki að kvika sé á hreyfingu á miklu dýpi sem ekki sæist í mæligögnum og því nauðsynlegt að fylgjast enn frekar með þróun virkninnar við Keili.