Nýjast á Local Suðurnes

Sextán ára stúlka þakkaði viðbragðsaðilum lífbjörg

Útkall C- vaktar Brunavarna Suðurnesja þann 24. apríl síðastliðinn verðu lengi í minnum haft hjá þeim aðilum sem því sinntu. Um var að ræða útkall á sjúkrabíl, sem er ekki í frásögur færandi ef ekki hefði verið um að ræða hjartastopp hjá 16 ára stúlku.

Þetta kemur fram í færslu BS á Facebook, en þar segir að hin 16 ára María Kristín Ragnarsdóttir hafi verið á æfingu heima hjá sér vegna Covid-19 ástandsins er hún hneig skyndilega niður. Vel tókst til við endurlífgun og unnu allir viðbragðsaðilar ótrúlega vel saman og komst hún til meðvitundar og var flutt á Landspítalann.

Laugardaginn 23. maí kom hún á vaktina hjá C vaktinni og heilsaði upp á þá með foreldrum sínum. Kom hún og þakkaði hún þeim lífgjöfina, afhenti þeim fallega mynd sem þau höfðu útbúið og þökkum við henni innilega fyrir og óskum henni og foreldrum hennar velfarnaðar í framhaldinu, segir í færslunni.

Það er ekki ofsagt að þetta sé útkall sem menn muna vel eftir því ekki er algengt að ungt fólk fari í hjartastopp og ekki alltaf sem svona vel tekst til. Sýnir þetta vel hvað góðir og vel þjálfaðir viðbragðsaðilar er mikilvægir í samfélaginu okkar.

Þá er tekið fram að færslan sé birt með leyfi Maríu og foreldra.