Nýjast á Local Suðurnes

Lagaleg óvissa vegna sölu á Óla á Stað til Loðnuvinnslunnar

Mynd: Grindavik.net

Dótturfélag Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, Hjálmar ehf., hefur keypt línubátinn Óla á Stað GK af Stakkavík í Grindavík. Nafni bátsins hefur þegar verið breytt í Sandfell SU 75 og er hann kominn til nýrrar heimahafnar á Fáskrúðsfirði.

Með í sölunni á bátnum tapa Grindvíkingar frá sér 1.164 tonna kvóta í krókaaflamarkskerfinu. Grindavíkurbær hafði forkaupsrétt á bátnum og aflaheimildum en hann var ekki nýttur, meðal annars vegna þess að Grindavíkurbær var í góðri trú um að ekkert samkomulag væri milli Stakkavíkur og Loðnuvinnslunnar um kaup á bátnum og aflaheimildum.

Bæjarráð Grindavíkur tók málið fyrir á fundi sínum þann 2. febrúar síðastliðinn og  harmar framgöngu málsaðila í ferlinu, en í fundargerð bæjaráðs segir að lagaleg óvissa ríki nú um söluna, sem gæti haft í för með sér tjón fyrir þá aðila sem að málinu koma.

Bæjarstjórn Grindavíkur hefur aldrei fjallað efnislega um málið, í ljósi þess að sölutilboðið var afturkallað 14. desember. Nú er staðan sú að lagaleg óvissa er um hvort forkaupsrétturinn sé enn fyrir hendi og inngrip sveitarfélagsins gæti því haft í för með sér óvissu og tjón fyrir aðila málsins.