Nýjast á Local Suðurnes

Gefa lítið fyrir álit sérfræðinga og segja nýtt leiðakerfi strætó ekki ganga upp

Reykjanesbær kynnti á dögunum nýja áætlun og leiðakerfi strætó í Reykjanesbæ, en breytingarnar taka gildi þann 6. janúar 2020. Helstu breytingar eru þær að akstur byrjar fyrr og vagnar aka lengur virka daga. Þá verður ferðum á laugardögum fjölgað og reynsla gerð á sunnudagsakstri innanbæjarstrætó. Þá eru gerða breytingar á leiðakerfinu, sérstaklega í Dalshverfi.

Almenn ánægja virðist vera með lengingu á aksturstíma, en íbúar í Dalshverfi í Innri-Njarðvík eru allt annað en ánægðir með niðurstöður sérfræðinga varðandi nýtt leiðakerfi strætó og segja það ekki ganga upp. Krakkar þurfi að ganga langar vegalengdir til þess að nýta sér þjónustuna og staðsetning á snúningsplani sé beinlínis hættuleg.

Þetta kemur fram í umræðum á Facebook-síðu sem íbúarnir halda úti og málefni hverfanna eru rædd. Í umræðunum kemur fram að leiðin sem strætó ekur muni styttast töluvert, en með þeim breytingum munu mörg börn þurfa að ganga allt að kílómeter til þess að geta nýtt sér þjónustuna. Þá mun strætó snúa við í Bjarkadal en íbúar benda á í umræðunum að sú gata sé þröng og henti alls ekki til þessa.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, svarar fyrir þessa gagnrýni í umræðunum og segir breytingar oft vera umdeildar og að ekki sé hægt að gera hlutina svo öllum líki.

“Beytingar eru mjög oft umdeildar og erfiðar. Markmiðið með þessum breytingum á strætókerfinu núna er m.a. að stytta aksturstíma og bæta þjónustu fyrir sem flesta án þess að auka rekstrarkostnað meira en nauðsynlegt er. Því miður er ekki hægt að gera svo öllum líki og ljóst að um leið og breytingarnar hafa jákvæð áhrif fyrir marga bæjarbúa kunna þær að hafa neikvæð áhrif fyrir aðra. Samkvæmt okkar upplýsingum eru þeir þó mun færri. Að breytingunum hafa m.a. komið sérfræðingar í almenningssamgöngum og þær verið kynntar og samþykktar samhljóða í bæjarráði og bæjarstjórn. Gefum þessu séns og sjáum hver reynslan verður.” Segir í svari Kjartans Más við gagnrýni íbúa Innri-Njarðvíkur.