Nýjast á Local Suðurnes

Mikil uppbygging framundan hjá Happy Campers

Mikil uppbygging er framundan hjá bílaleigufyrirtækinu Happy Campers sem staðsett er við Stapabraut í Njarðvík, ef hugmyndir um breytingar á deiliskipulagi á lóð fyrirtækisins ná fram að ganga. Á lóðinni verður heimilt að reka matvöruverslun, veitingasölu, gistiaðstöðu og eldsneytissölu.

Fyrirtækið, sem fagnar 10 ára afmæli á árinu, flutti höfuðstöðvar sínar til Reykjanesbæjar árið 2016 og sagðist Herdís Jónsdóttir, sölustjóri fyrirtækisins, hafa mikla trú á svæðinu við það tækifæri.

“Við höfum mikla trú á svæðinu og hér eru miklir framtíðarmöguleikar.” Segir Herdís Jónsdóttir, sölustjóri fyrirtækisins, “Svo koma um 4 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll árlega, þannig að nálægðin spillir ekki.” Sagði Herdís í spjalli við Suðurnes.net.

Deiliskipulagsbreytingin, sem nú er í ferli, nær til lóðanna Stapabrautar 21 og nýrrar lóðar fyrir verslun og þjónustu, ásamt þegar gerðum breytingum aðlægra gatna. Markmið deiliskipulagsbreytingar er að skapa skilyrði fyrir fjölbreytta þjónustu í takt við áherslur sveitarfélagsins. Rík áhersla verður lögð á gott heildaryfirbragð bygginga og tilheyrandi aðstöðu og gróðursæla ásýnd lóða. Lögð verður áhersla á vandaða og metnaðarfulla hönnun og frágang bygginga og lóða. Við staðsetningu og hæðir bygginga er tekið mið af því að byggð sé í góðri sátt við umhverfið og nálæga íbúðarbyggð, segir meðal annars í lýsingu á breyttu skipulagi.

Eigendur og starfsfólk Happy Campers þegar fyrirtækið flutti höfuðstöðvar sínar í Reykjanesbæ