Karlakórinn óskar eftir söngglöðum Suðurnesjamönnum
Karlakór Keflavíkur óskar eftir söngglöðum Suðurnesjamönnum til liðs við þann flotta hóp sem fyrir er. Kórinn auglýsir eftir nýjum félögum á Facebook-síðu sinni hvar tekið er fram að nokkrar opnar æfingar séu í boði á næstunni.
Kæru Suðurnesjamenn. Nú eru raddprófanir að hefjast hjá okkur og ætlar Karlakórinn að fara af krafti í vetrarstarfið. Við viljum fá miklu fleiri söngmenn í lið með okkur því nú stendur til að styrkja og stækka kórinn og stefnt á flotta tónleika og utanlandsferð á næsta ári þegar kórinn verður 70 ára. Við verðum með opnar æfingar á mánudögum og fimmtudögum kl. 19:30 í KK salnum að Vesturbraut 17-19 í Reykjanesbæ út september og sú fyrsta verður fimmtudaginn 15. sept. Við hvetjum alla karla sem hafa gaman af söng til að koma til okkar og prófa. Það þarf ekki meira en sönggleðina til að vera með vegna þess að með þátttöku í karlakórnum okkar fá menn góðan skóla undir styrkri stjórn Jóhanns Smára Sævarssonar óperusöngvara. Athugið að fyrsta árið þurfa menn ekki að greiða félagsgjöld. Við hvetjum einnig gamla félaga sem hafa hvílt raddböndin undanfarið til að slást í hópinn, segir á Facebook-síðu kórsins.