Nýjast á Local Suðurnes

Óánægja meðal íbúa Reykjanesbæjar með starfsemi Mjölnis

Hugbúnaðarfyrirtækið Advania rekur stærsta gagnaver landsins, Mjölni sem staðsett er í Reykjanesbæ og þjónustar um fimmtán viðskiptavini. BitFury er lang stærsti viðskiptavinur gagnaversins og notar á bilinu 70-80 prósent af orku þess. Heildarafl Mjölnis er um tíu megavött á klukkustund en verður 13 megavött þegar það verður fullklárað í haust eða 113,88 gígavattstundir á ári. Það er 8,4 % af raforkuframleiðslu HS Orku árið 2014; eða um eitt prósent af allri orku í landinu (0,87%).

Stundin hefur birt ítarlega rannsókn á starfsemi Mjölnis og stærsta viðskiptavinar þess og herma heimildir Stundarinnar að nokkurrar óánægju gæti með starfsemina á meðal íbúa Reykjanesbæjar.

Þannig gagnrýni fólk til að mynda hversu fá störf þetta orkufreka gagnaver skapi. Líkt og komið hefur fram gerir Advania einungis ráð fyrir fimm föstum ársverkum. BitFury sér hinsvegar um rekstur eigin tölvubúnaðar í gagnaverinu og er því með einhverja starfsmenn. Með þeim gætu ársverk í gagnaverinu verið á bilinu 5-10. Til samanburðar má nefna að í gagnaveri Verne Global, sem notar mun minni orku en Mjölnir, eru 40 stöðugildi.

Þá segir í rannsókn Stundarinnar að íbúar í Innri Njarðvík hfi kvartað vegna hávaðamengunar frá gagnaverinu. „Það er eitthvað suð sem heyrist frá þessu,“ segir einn viðmælandi Stundarinnar. Hér er átt við hávaðann í viftunum sem getur stundum líkst hávaða í þotuhljóði eða drunum á himnum. „Á tímabili var hljóðið allan sólarhringinn en núna er það eins og on/off eitthvað, það er líka misjafnt eftir vindátt.“