Nýjast á Local Suðurnes

Grindavík lagði Njarðvík í Maltbikarnum – Tyson-Thomas meiddist og fór af velli

Grindavík lagði Njarðvíkinga að velli í í 16-liða úrslitum Maltbikarsins, 85-70, en leikurinn var fyrsti leikur Grindvíkinga undir stjórn Bjarna Magnússonar.

Grindavíkurstúlkur byrjuðu betur og höfðu frumkvæðið í fyrsta leikhluta. Njarðvíkurstúlkur létu þó aðeins finna fyrir sér þegar leið á annan leikhluta, en Grindvíkingar héldu 10 stiga forystu í hálfleik, 46-36.

Njarðvíkingar urðu fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Carmen Tyson-Thomas, sem hafði skorað 18 stig í hálfleiknum, varð fyrir meiðslum en hún kom ekki meira við sögu í leiknum. Grindavíkurstúlkur nýttu sér það og bættu örlítið við forskotið, þrátt fyrir hetjulega baráttu Njarðvíkurstúlkna. Leiknum lauk með 15 stiga sigri Grindavíkur, 85-70.

Agnar Már Gunnarsson, þjálfari Njarðvíkinga var skiljanlega ekki sáttur með úrslitin, en hann var sáttur við spilamennskuna eftir að Tyson-Thomas meiddist, en mikill reynslumunur er á liðunum.

“Ég er mjög sáttur hvernig þær komu inn í seinnihálfleikinn, það hefði verið mun auðveldara að gefast upp en þær spíttu vel í lófana og gáfu Grindavíkur stelpum ekkert eftir.” Sagði Agnar Már.

“Mínar stelpur eru með 7 deildarleiki í reynslu á bakinu á móti 100 A-landsliðleikjum hjá Grindavíkurstelpum og það var ekki að sjá í stórum hluta seinnihálfleiks. En stoltur af þeim að gefast ekki upp og nú er þessi leikur kominn í reynslupokan og horfum bara framávið á næsta verkefni sem er núna strax á miðvikudag.”

Agnar Már sagðist ekki hafa vitneskju um hversu alvarleg meiðsli Tyson-Thomas eru og vonar það besta Tyson-Thomas mun vera komin undir læknishendur í Reykjavík, þar sem verið er að skoða stöðuna.