Nýjast á Local Suðurnes

Klárir með varaafl komi til rafmagnsleysis

Starfsfólk Landsnets býr sig nú undir nokkrar sviðsmyndir ef til eldgoss kæmi á Reykjanesskaga og ef hraunflæðið myndi ógna flutningskerfi rafmagns á svæðinu. Fyrirtækið segist tilbúið með varaafl komi til þess að rafmagn fari af svæðinu.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu fyrirtækisins. Færsluna má sjá hér fyrir neðan:

Ein sviðsmyndin gerir ráð fyrir að hraun renni til norðurs og stefni á línuleið Suðurnesjalínu 1. Línan liggur sunnan megin við Reykjanesbraut frá Hafnarfirði og að Fitjum í Reykjanesbæ og er eina línan sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum í dag.

Landsnet starfar samkvæmt óvissustigi vegna atburðanna á Reykjanesi. Það þýðir að við fylgjumst grannt með þróun og höfum virkjað okkar viðbragð í góðu samstarfi við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofa Íslands og orkufyrirtækin, HS Veitur HS Orka á svæðinu.

Síðustu daga höfum við farið um svæðið og metið hættuna út frá því að hraun myndi renna til norðurs. Ef sú sviðsmynd raungerist og hraun fer að renna í átt að Suðurnesjalínu 1 þá höfum við undirbúið ýmsa möguleika til að bregðast við.

Það myndi eflaust taka einhverja daga fyrir hraunið að komast að línufarveginum sem gefur okkur tækifæri til að verja möstrin með varnargörðum, styrkja eða færa þau til. Við erum þegar byrjuð að hanna færslur á möstrum og að undirbúa efni, fara yfir hvað þarft af efni og búnaði, varahluti ofl. því tengdu.

Ef Suðurnesjalínan færi út fyrirvaralaust þá tæki við svokallaður eyjarekstur sem þýðir að virkjanirnar á svæðinu, Reykjanesvirkjun og Svartsengi, geta séð svæðinu fyrir forgangsrafmagni.

Því til viðbótar er Landsnet tilbúið með færanlegt varaafl sem verður flutt til Suðurnesja komi til þess að línan leysi út. Við erum viðbúin með flutningsaðilum svo hægt verði með stuttum fyrirvara að færa varaaflið inn á Reykjanesið ef til rafmagnsleysis kæmi.