Skólastjóraskipti í Sandgerði

Skólastjóraskipti verða í Grunnskólanum í Sandgerði nú í haust. Fanney Dóróthe Halldórsdóttir sem starfað hefur við skólann í um 20 ár lætur af störfum skólastjóra, en Fanney hefur verið ráðin fræðslustjóri í Hafnarfirði.
“Undir stjórn Fanneyjar hefur skólastarfið í Grunnskólanum í Sandgerði einkennst af metnaði, vexti og virðingu. Um leið og Fanneyju er óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi eru henni færðar innilegar og hlýjar þakkir fyrir framlag hennar til skólastarfs og þátt hennar í að þroska og efla þau börn sem hér hafa vaxið úr grasi síðustu 20 ár.” Segir í tilkynningu á heimsíðu Sandgerðisbæjar.
Hólmfríður Árnadóttir hefur verið ráðin skólastjóri Grunnskólans í Sandgerði, í stað Fanneyjar. Hólmfríður er grunnskólakennari að mennt og með M.Ed. í menntunarfræðum. Hún hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði menntamála. Áður en Hólmfríður réðst til starfa í Grunnskólanum í Sandgerði vann hún sem sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og kenndi í kennaradeild háskólans. Hólmfríður hefur einnig reynslu af kennslu og stjórnun bæði á leikskóla- og grunnskólastigi.