Nýjast á Local Suðurnes

Staðsetja dælubíl í Vogum – Óska eftir fólki í varalið BS í sveitarfélaginu

Brunavarnir Suðurnesja (BS) óska eftir einstaklingum til að skipa varalið BS í Vogum. Nýtt áhaldahús í sveitarfélaginu verður búið sérrými þar sem einn af dælubílum Brunavarna Suðurnesja verður framvegis staðsettur. Ráðstöfunin mun stytta útkallstíma slökkviliðsins til muna.

Varaliðið er hópur viðbragðsaðila sem kemur slökkviliðinu til aðstoðar þegar um stór og alvarleg útköll er að ræða, eða einhverjar aðrar þær aðstæður verða sem kalla á viðbótarmannskap við fastaliðið. Í ljósi þess að slökkvibíll verður brátt staðsettur í Vogum sækist BS nú eftir liðsauka í Vogum, segir bæjarstjóri í pistli á heimasíðu sveitarfélagsins.

Um er að ræða spennandi tækifæri, einkum fyrir ungt fólk sem vill skapa sér möguleika á framtíðarstarfi á vettvangi brunavarna. Gerð er krafa um gott líkamlegt atgervi, og þurfa umsækjendur því að standast þrekpróf. Varaliðið sækir æfingar reglulega, og fá greidd laun fyrir það. Þá opnar aðild að varaliðinu leið fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa við sumarafleysingar í slökkviliðinu og / eða sækja um fastráðningu.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóra, netfang hans er jong@bs.is