Nýjast á Local Suðurnes

Minnihlutinn vill ekki fjárhaldsstjórn náist ekki samkomulag við kröfuhafa

Drög að samkomulagi við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnana hans voru lögð fram í bæjarráði Reykjanesbæjar á fundi þess í morgun. Í tilkynninu sem Reykjanesbær sendi frá sér í gær kom fram að næðist ekki samkomulag við kröfuhafa yrði óskað eftir því að skipuð yrði fjárhaldsstjórn yfir sveitarfélaginu.

Samkomulagið sem greint var frá í gær og samþykkt á fundi bæjarráðs í morgun byggir á áætlunum sveitarfélagsins og viðræðum við kröfuhafa. Það gerir ráð fyrir að aðilar að samkomulaginu (fjárhagslegir kröfuhafar) færi niður skuldir og/eða skuldbindingar Reykjanesbæjar og stofnana hans með beinni niðurfærslu samtals að fjárhæð kr. 6.350 milljónir.

Miðað er við að kröfuhafar gefi eftir 24,4% – 50% af kröfum sínum og fer það eftir tryggingum hvers kröfuhafa gagnvart sveitarfélaginu hveru há prósentutalan er. Samkvæmt heimildum sudurnes.net hefur enn sem komið er ekki náðst samkomulag við alla kröfuhafa, en fram kom í tilkynningunni að kynningarfundur hafi verið boðaður með kröfuhöfum á mánudag.

Þá samþykkti bæjarráð á fundi sínum í morgun að gangi kröfuhafar ekki að samkomulaginu muni sveitarfélagið óska eftir því að skipuð verði fjárhaldsstjórn yfir því. Þessi liður fundarins var samþykktur með atkvæðum meirihlutans, en minnihlutinn greiddi atkvæði á móti tillögunni.