Nýjast á Local Suðurnes

Guðbrandur: “Hægt að hætta við verkefnið sé andstaða íbúa mikil”

Guðbrandur Einarsson er til hægri á myndinni

Töluverð umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum um fyrirhugaða byggingu úrræðis fyrir ósakhæfa einstaklinga í Dalshverfi í Innri-Njarðvík, en af ummælum við flestar færslur þessu tengt má geta sér til að íbúar hverfisins vilji ekki að þessi þjónusta sé veitt á þessu svæði.

Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi og verðandi þingmaður Suðurkjördæmis, segir í umræðum um málið í íbúahópnum Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri að hann muni ekki styðja slíka uppbyggingu, sé hún í andstöðu við óskir bæjarbúa.

Umræðan kom upp í tengslum við framboð Guðbrands til Alþingis og má sjá svör hans við því hér fyrir neðan í nokkrum liðum:

Einhverjir hafa séð sér leik á borði og tengt andstöðu sína við hugsanlega öryggisvistun í Innri Njarðvík við framboð mitt til Alþingis. Að ég sem forseti bæjarstjórnar beiti mér gegn því að endurskoðun aðalskipulags sem nú er í gangi fari í íbúakosningu.

Vegna þessa finnst mér rétt að taka fram.

  1. Það var ráðherra Framsóknarflokksins sem leitaði til okkar með þetta erindi.
  2. Allir bæjarfulltrúar samþykktu að farið yrði í viðræður við ráðuneytið um slíka uppbyggingu í Reykjanesbæ og voru helstu rökin þau að þessari starfsemi fylgdi mikil uppbygging og fjöldi starfa í framhaldinu. Þá væri einnig möguleiki á því að Reykjanesbær gæti fengið afnot af sérhæfðri þekkingu sem slíkri starfsemi fylgir.
  3. Ekkert hefur verið samþykkt ennþá.
  4. Það er ekki hefð fyrir því að breyting á aðalskipulagi fari í íbúakosningu en hefð má að sjálfsögðu rjúfa að teknu tillit til framkominna óska íbúa
  5. Það mætti alveg hugsa sér aðra staðsetningu en gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi tillögu
  6. Það er einnig hægt að hætta við þetta verkefni ef andstaða íbúa er mikil.
  7. Það eru fleiri bæjarfulltrúar í framboði til Alþingis en ég.
  8. Ég mun ekki styða þessa uppbyggingu ef hún er í andstöðu við íbúa.
    Ég hef enga persónulega hagsmuni af því að úrræði sem þetta verði staðsett í Reykjanesbæ. Ég taldi hins vegar, ásamt öllum bæjarfulltrúum, rétt að ganga til samninga við ráðuneytið um þessa þjónustu. Veikir einstaklingar þurfa á því að halda að um þá sé hugsað og við sem samfélag þurfum að sameinast um að gera það vel.