Nýjast á Local Suðurnes

Á 173 km hraða á Reykjanesbraut – Þarf að greiða háa sekt og taka ökupróf aftur

Ökumaður sem var á ferð eftir Reykjanesbraut um helgina mældist á 173 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. á klukkustund.  Hann var færður á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Samgöngustofa heldur úti sérstökum sektarreikni á vefsíðu sinni, fyrir hraðakstur og ölvunarakstur, þar sem notendur geta valið sér skilyrði og fengið út hver refsingin kemur til með að verða, samkvæmt reikninum bíður ökumanns sem ekur á þessum hraða ákæra og dómur, sektarupphæð er ekki tilgreind en fyrir hraða upp að 171 km er sektin 150.000 krónur. Þá þarf viðkomandi að gangast undir ökupróf aftur að sviptingartíma liðnum.

Annar ökumaður sem mældist á 123 km. hraða, einnig á Reykjanesbraut, hafði ekki náð 18 ára aldri. Lögreglan á Suðurnesjum hafði því samband við aðstandendur viðkomandi og gerði þeim grein fyrir brotinu, auk þess sem sektarboð var sent út.

Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af nokkrum bifreiðum sem voru á ferð, ýmist  óskoðaðar  eða ótryggðar,  í umdæmi  lögreglunnar á Suðurnesjum. Loks voru höfð afskipti af ökumanni sem ók bifreið með leyfða heildarþyngd yfir 3.500 kg. en hafði ekki til þess réttindi.