Nýjast á Local Suðurnes

Samgönguráðherra segir mögulegt að flýta framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar

Mynd: Skjáskot You-tube / Ívar Gunnarsson

Fulltrúar allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum auk fulltrúa frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum hittu umhverfis- og samgöngunefnd Alþings á fundi í morgun. Á fundi nefndarinnar var fjallað um tillögur til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024 og 2020-2034.

Allir aðilar settu eitt mál í forgang, ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, en fulltrúarnir óskuðu eftir því að þeirri framkvæmd yrði flýtt miðað við þær tillögur sem nú er að finna í núverandi Samgönguáætlun. Það er ekki bara hagsmuna mál Suðurnesjamanna heldur allra landsmanna og allra þeirra ferðamanna sem sækja okkur heim, segir í tilkynningu á vef SSS.

Í kjölfar fundarins boðaði Sigurður Ingi Jóhannsson, Ráðherra samgöngumála, áherslubreytingar vegna framkvæmda við Reykjanesbraut, en hann hefur meðal annars átt fundi og samtöl við fulltrúa Vegagerðarinnar, Hafnafjarðabæjar og álversins í Straumsvík vegna málsins. Hann segir nýjar forsendur á útfærslu á tvöföldun Reykjanesbrautar vera komnar fram þannig að hagkvæmast sé að breikka Reykjanesbrautina, frá gatnamótum við Krýsuvík að Hvassahrauni, í núverandi vegstæði og einfalda fyrri útfærslur. Náist farsæl lending verður hægt að flýta og ljúka framkvæmdum við Reykjanesbrautina frá gatnamótum við Krýsuvík að Hvassahrauni á fyrsta tímabili samgönguáætlunnar, eða fyrir árslok 2024.