Góður árangur náðst í meðferð heimilisofbeldismála
Árangur við úrvinnslu heimilisofbeldis hefur tekið stakkaskiptum eftir að lögreglan á Suðurnesjum hóf samstarf við félagsþjónustur sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Hlutfall mála þar sem rannsókn var hætt fækkaði úr 94% árið 2010 í 3% árið 2015.
Að sögn Lögreglunnar á Suðurnesjum hefur góður árangur náðst í úrvinnslu heimilisofbeldis á Suðurnesjum á undanförnum árum. Vísbendingar þar af lútandi séu t.d. upplýsingar frá Kvennaafhvarfinu um að þangað hafi leitað færri konur og börn frá Suðurnesjum eftir að breytt verklag var tekið upp. Þá hafi fleiri karlar af Suðurnesjum leitað aðstoðar hjá Körlum til ábyrgðar (nú Heimilisfriður) en áður.
Mál fá nú meiri framgang innan réttarvörslukerfisins nú en áður og hafa 28 dómar fallið í heimilisofbeldismálum á Suðurnesjum á árunum 2011-2014.
„Árið 2010 var rannsókn hætt í 17 af þeim 18 málum sem komu til rannsóknar hjá lögreglu, strax hjá rannsóknardeild. Þetta eru 94% málanna. Árið 2015 var þetta hlutfall komið í 2 mál eða 3% af þeim 62 málum sem komu upp það ár,“ segja Skúli Jónsson og Jóhannes Jensson hjá Lögreglunni á Suðurnesjum.
Á vef Reykjanesbæjar er tengill í bækling um heimilisofbeldi á íslensku, ensku og pólsku sem gefinn var út af félagsþjónustu sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Velferðarvaktarinnar og Velferðarráðuneytisins í kjölfar samstarfsins. Slóðin erhttp://www.reykjanesbaer.is/thjonusta/velferdarmal/heimilisofbeldi/ Nú er unnið að endurútgáfu á bæklingnum á vegum velferðarráðuneytisins.