Nýjast á Local Suðurnes

Íbúar á Suðurnesjum sækja þjónustu út fyrir svæðið í miklum mæli

Íbúar í Sveitarfélaginu Garði, Sandgerðisbæ og Vogum sækja um 90% þjónustunnar út fyrir sitt búsetusvæði. Í Grindavík sækja íbúar aftur á móti um 60% þjónustunnar utan búsetusvæðisins og í Reykjanesbæ um 33% þjónustunnar. Þetta eru niðurstöður úr úr viðamiklum þjónustukönnunum Byggðarstofnunnar.

Undirbúningur að framkvæmd þjónustukannana á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi eystra, Austurlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum hófst haustið 2016 í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.

Könnunin fór fram í júní-október 2017 og sá Gallup um þá vinnu. Tekið var lagskipt slembiúrtak úr viðhorfahópi Gallup og Þjóðskrár, skipt eftir póst- eða sveitarfélagsnúmerum. Þessi úrtaksaðferð er algeng þar sem þýðið er mjög lítið í nokkrum laganna, búsetusvæði í þessu tilviki. Niðurstöður úr könnunum fyrir þessa landshluta lágu fyrir um síðastliðin áramót og var unnið úr þeim á fyrrihluta ársins 2018.

Þjónustukannanirnar gefa viðamiklar niðurstöður á ýmsum sviðum og skýrslurnar í heild er að finna hér. Í framhaldinu verða lagðar fram tillögur til úrbóta þar sem þjónusta er ekki í samræmi við kröfur í nútímasamfélagi.