Nýjast á Local Suðurnes

Miðla upplýsingum til erlends vinnuafls í flugstöðinni

ASÍ og Isavia hafa gert með sér samstarfssamning um miðlun upplýsinga til erlends launafólks um íslenskan vinnumarkað, kjarasamninga, réttindi og skyldur. Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, undirrituðu samstarfssamning þess efnis í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli í gær.

Markmiðið með samningnum og samstarfi ASÍ og Isavia er að stuðla að heilbrigðum vinnumarkaði á Íslandi, þar sem allir njóti kjara og annarra réttinda í samræmi við kjarasamninga og lög og þar sem launafólki er ekki mismunað á grundvelli þjóðernis. Þetta er liður í baráttunni fyrir heilbrigðum vinnumarkaði, að kjarasamningar séu virtir og fólk af erlendum uppruna sem kemur til landsins að vinna fái upplýsingar um réttindi sín.

Til að ná þessu markmiði verða skjáir í flugstöðinni notaðir til að miðla upplýsingum til farþega. Þá verður prentað kynningarefni gert aðgengilegt á nokkrum stöðum – þar á meðal í töskumóttökusal flugstöðvarinnar.

Verkefnið byggir meðal annars á samfélagslegri ábyrgð aðila eins og hún birtist í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um góða atvinnu og hagvöxt og um frið og réttlæti.