Nýjast á Local Suðurnes

19 starfsmenn Grindavíkurbæjar luku PMTO grunnmenntun

Alls útskrifuðust 19 starfsmenn Grindavíkurbæjar og frá leikskólanum Króki úr grunnmenntun PMTO síðasta miðvikudag. Lokaverkefni starfsmanna voru skemmtilega fjölbreytt og áhugaverð. Grindavíkurbær hefur markað sér þá stefnu að efla færni foreldra í uppeldi barna sinna og unnið að innleiðingu þeirrar stefnu undanfarin ár undir heitinu Foreldrafærni og er PMTO grunnmenntun starfsfólks hluti af því verkefni.

Á heimasíðu Grindavíkurbæjar kemur fram að þátttakendur hafi verið sammála um að PMTO grunnmenntun hafi komið að frekar eða mjög miklu gagni í starfi þeirra og að þeir myndu mæla með PMTO grunnmenntun við aðra. Nú er um að gera fyrir grunnskólann, íþróttamiðstöðina, leikskólana, félagsþjónustu- og fræðslusvið og frístunda- og menningarsviðs að nýta menntun fólksins til að hafa áhrif á hegðun og samskipti með jákvæðum og markvissum hætti og miðla þekkingu sinni til fleiri aðila.

Á myndinni má sjá hópinn sem lauk grunnmenntun PMTO síðasta miðvikudag ásamt kennurunum Ingibjörgu Maríu Guðmundsdóttur sálfræðingi og PMTO meðferðaraðila hjá félagsþjónustu- og fræðslusviði Grindavíkurbæjar og Önnu Maríu Frímannsdóttur sálfræðingi og PMTO meðferðaraðila hjá Miðstöð PMTO foreldrafærni.