Nýjast á Local Suðurnes

Fjárfesta í geoSilica – “Spennandi nýsköpunarfyrirtæki sem hefur skýra framtíðarsýn”

Lífeyrissjóðurinn Lífsverk hefur fjárfest í nýsköpunarfyrirtækinu geoSilica fyrir 50 milljónir króna. Við þau kaup eignaðist lífeyrissjóðurinn 6,7% hlut í fyrirtækinu og varð fyrsti lífeyrissjóðurinn til að fjárfesta í félaginu.

GeoSilica er 7 ára gamalt fyrirtæki sem nýtir affallsvatn úr Hellisheiðarvirkjun til að framleiða 100% náttúrulegt kísilsteinefni í vökvaformi sem notað er til inntöku. Kísilsteinefni eru nytsamleg til að styrkja liði og bein, húð, hár og neglur, auk þess að vera nytsamleg fyrir vöðva og taugar, en mikil eftirspurn er eftir slíkum vörum í dag.

„Þetta er mjög spennandi nýsköpunarfyrirtæki sem hefur skýra framtíðarsýn og öfluga stjórnendur. Við teljum að þetta sé góð langtímafjárfesting fyrir sjóðinn,“ segir Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri Lífsverks í tilkynningu á vef sjóðsins

Þar segir Jón ennfremur að einnig sé hægt að líta á fjárfestinguna sem samfélagslega ábyrgð sem felst í uppbyggingu af þessu tagi.