Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvík úr leik í Powerade-bikarnum – Ekkert stig af bekknum

Njarðvíkingar eru úr leik í Powerade-bikarkeppninni í körfuknattleik eftir 16 stiga tap gegn KR-ingum á heimavelli þeirra síðarnefndu, 90-74. Athygli vakti að aðeins fimm leikmenn Njarðvíkinga komust á blað í leiknum, ekki eitt einasta stig kom frá varamönnum liðsins.

Það var vitað að róðurinn yrði erfiður fyrir Njarðvíkinga sem enn leika án erlends leikmanns, þar sem ekki hefur fengist leikheimild fyrir Michael Craig. En Njarðvíkingr byrjuðu þó vel og leikurinn var jafn og spenn­andi fram­an af. Njarðvík­ing­ar voru yfir að fyrsta leikhluta lokn­um, 22-19. KR-ing­ar komu hins veg­ar mun sterk­ari til leiks í öðrum leikhluta og unnu hann með tíu stiga mun. Staðan í leikhléi 46-39 fyrir vesturbæinga og vonin um sæti í undanúrslitunum enn til staðar hjá Njarðvíkingum.

KR-ing­ar voru svo mun sterkari í þriðja leikhluta og juku forystuna jafnt og þétt og fyr­ir loka fjórðung­inn voru þeir fimmtán stig­um yfir, 66-51. Það var ljóst að fjórði leikhlutinn yrði Njarðvíkingum erfiður, enda lítið framlag af bekknum, svo fór enda að lokum að KR-ingar höfðu sanngjarnan sigur, 90-74 og eru komnir í undanúrslitin á kostnað Njarðvíkinga.

Haukur Helgi Pálsson var bestur Njarðvíkinga í kvöld, skoraði 27 stig og tók 15 fráköst. Þá kom Oddur Rúnar sterkur inn með 19 stig, ólafur Helgi skoraði 15 og Hjörtur Hrafn setti 10. Sem fyrr segir vakti athygli að ekkert stig kom frá varamönnum liðsins, þá vakti einnig athygli að Logi Gunnarsson sem verið hefur einn besti leikmaður liðsins í vetur skoraði aðeins þrjú stig á þeim rúma háltíma sem hann lék.