Nýjast á Local Suðurnes

Bleikja úr Sandgerði komin í verslanir erlendis á innan við sólarhring

 Í vinnsluhúsi Samherja í Sandgerði var tekið á móti 3.800 tonnum af bleikju á síðasta ári, meginhluti framleiðslunnar er fluttur út ferskur, aðallega til Bandaríkjanna og er framleiðsla dagsins komin í hendur kaupenda nokkrum klukkustundum síðar, meðal annars vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll.

„Hérna er vinnsla alla virka daga ársins og framleiðslan er á bilinu 80 til 85 tonn og fiskurinn kemur til okkar lifandi frá eldisstöðunum á Vatnsleysuströnd og Stað við Grindavík. Starfsmenn eru hátt í þrjátíu, flestir með nokkuð langan starfsaldur, sem segir okkur að þetta er góður vinnustaður. Við fluttum inn í þetta húsnæðið í mars 2018, áður vorum við með vinnslu í Grindavík. Allur tækjabúnaður var endurnýjaður og kaupendur sem heimsækja okkur róma allir vinnsluna, segja hana standast allar þær körfur sem gerðar eru til framleiðslu hágæða afurða. Samherji fiskeldi er með alþjóðlegar vottanir á starfseminni sem tekur á öllum þáttum starfseminnar,“ segir Bergþóra Gísladóttir í frétt sem birt er á heimasíðu fyrirtækisins.

„Það má alveg líkja þessu nýja húsi okkar við byltingu á starfseminni. Flestum fannst húsnæðið í upphafi stórt en í dag fer minna fyrir þeirri umræðu. Okkur helst sem sagt vel á starfsfólki og biðlistinn eftir starfi er yfirleitt nokkuð langur. Það skiptir miklu máli að hafa vel þjálfað starfsfólk, sem þekkir vinnsluna í þaula.“

Vinnsla Samherja í Sandgerði er mjög fullkomin

Eins og fyrr segir er Samherji fiskeldi stærsti framleiðandi á bleikju í heiminum. Bergþóra segir að vel gangi að selja afurðirnar.

„Við seljum mest til Bandaríkjanna en á síðastliðnum árum hefur Evrópa verið að taka við sér. Eftirspurnin hefur verið að aukast ár frá ári, sérstaklega á ferskri bleikju. Auðvitað var mikil vinna að markaðssetja vöruna í upphafi en í dag er staðan sú að öll framleiðslan fer rakleitt til kaupenda. Við erum aðeins nokkrar mínútur frá Keflavíkurflugvelli, sem þýðir að framleiðsla dagsins er komin í verslanir ytra daginn eftir, ferskara getur það varla orðið. Birgðastaðan er í algjöru lágmarki, allt selst strax.“

„Já, þetta er skemmtilegt og gefandi starf. Ferskfiskvinnslu fylgir eðlilega ákveðið stress en jafnframt skemmtilegheit. Starfið krefst mikilla samskipta, bæði við starfsfólk, þjónustuaðila og kaupendur. Dagarnir eru með öðrum orðum fljótir að líða og sem betur fer er alltaf tilhlökkun að mæta til starfa, enda hef ég starfað hjá Samherja í nærri tvo áratugi,“ segir Bergþóra Gísladóttir framleiðslustjóri Samherja fiskeldis í Sandgerði.