Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær óskar eftir lengri fresti – Enn von um að ná samkomulagi

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar óskar eftir lengri fresti frá eftirlitsnefnd með málefnum sveitarfélaga, þar sem enn er von til þess að samkomulag naist. Þá hefur Reykja­nes­höfn óskað eft­ir áframhaldandi greiðslu­fresti og kyrr­stöðutíma­bili við kröfu­hafa á meðan á viðræðum Reykja­nes­bæj­ar við kröfuhafa stend­ur. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu Reykja­neshafnar til Kaup­hall­ar­inn­ar í kvöld.

Í  tilkynningunni er birt bókun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá því í dag, þar sem óskað er eftir lengri fresti til viðræðna við kröfuhafa. Bókun bæjarstjórnar er að finna hér fyrir neðan í heild sinni.

„Í bréfi sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi bæjarstjórn Reykjanesbæjar þ. 18. maí sl. bregst nefndin við tilkynningu Reykjanesbæjar frá 499. bæjarstjórnarfundi þ. 3. maí sl. um að samningar við kröfuhafa séu ekki í sjónmáli. Í bréfinu kemur fram að það sé mat eftirlitsnefndar að greiðslubyrði samstæðu Reykjanesbæjar umfram greiðslugetu sé svo mikil að ljóst sé að ekki muni úr rætast í bráð. Þá uppfylli samstæðan hvorki viðmið 64. gr. sveitarstjórnarlaga, bráðabirgðaákvæðis II né 16. gr. reglugerðar nr. 502/2012. Því telji nefndin að ekki verði hjá því komist að leggja til við innanríkisráðherra að Reykjanesbæ verði skipuð fjárhaldsstjórn, sbr. 86. gr. sveitarstjórnarlaga. Áður en endanlega ákvörðun verður tekin um hvort slík tillaga verði lögð fyrir innanríkisráðherra er bæjarstjórn gefið tækifæri á að koma á framfæri athugasemdum sínum eða frekari upplýsingum sem hún telur þörf á. Í því skyni vill bæjarstjórn upplýsa eftirlitsnefndina um eftirfarandi:

Frá því að framangreind tilkynning var send eftirlitsnefndinni þ. 4. maí sl. hefur viðræðum við kröfuhafa verið fram haldið og því enn von til þess að frjálsir samningar um breytingar á skuldum Reykjanesbæjar náist. Slíkir samningar myndu um leið létta á greiðslubyrði þess og gera því kleift að leggja fram raunhæfa aðlögunaráætlun eins og lög gera ráð fyrir.

Því óskar bæjarstjórn eftir lengri fresti sem nýttur yrði til þess að ná ásættanlegri niðurstöðu.“