Nýjast á Local Suðurnes

16 liða úrslit: Grindavík mætir Fylki í kvöld og Víðir heimsækir Selfoss á morgun

Grindvíkingar taka á móti Fylki í 16 liða úrslitum Borgunarbikarsins í knattspyrnu á Grindavíkurvelli í kvöld klukkan 19.15. Liðin hafa mæst 49 sinnum í gegnum tíðina og er tölfræðin úr þeim viðureignum nokkuð hliðhollari Fylkismönnum, þeir hafa unnið 30 leiki á móti 11 Grindvíkinga, 8 hefur því lokið með jafntefli. Í þessum 49 leikjum hafa Grindvíkingar skorað 60 mörk gegn 96 Fylkismanna.

Möguleikar Grindvíkinga eru þó töluverðir þar sem Fylkismenn hafa farið afar illa af stað í Pepsí-deildinni undir stjórn Hermanns Hreiðarssonar, en þeir verma botnsætið með aðeins tvö stig eftir sjö umferðir. Grindvíkingar hafa aftur á móti farið afar vel af stað í Inkasso-deildinni, eru efstir eftir fimm umferðir með 12 stig.

Víðismenn hafa líkt og Grindavík farið afar vel af stað á þessu tímabili og eru sem stendur í efsta sæti þriðju deildarinnar með fullt hús stiga. Þeir heimsækja Selfyssinga í 16 liða úrslitunum á fimmtudag og hefst leikurinn klukkan 19.15.

Þessi lið hafa mæst 20 sinnum í gegnum tíðina í öllum keppnum, Víðir hefur unnið sex leiki, sjö hafa endað með jafntefli og sjö hafa Selfyssingar sigrað. Markatalan 38-33, Selfossi í vil.