Leigufélög færa Reykjanesbæ húsnæði að gjöf undir nýjan leikskóla
Fasteignafélögin Heimavellir og Ásbrú íbúðir munu færa Reykjanesbæ húsnæði að gjöf undir nýjan leikskóla að Ásbrú. Húsnæðið hentar vel til leikskólastarfs en þar var áður samkomuhús á gamla varnarliðssvæðinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félögunum tveimur, en þar srgir að gríðarleg uppbygging hafi verið á Ásbrú síðustu ár. Þá hefur íbúðum á svæðinu fjölgað verulega. Íbúafjöldi telur nú um 2.700 manns og er stór hluti þeirra fjölskyldufólk. Einn grunnskóli er á svæðinu, Háaleitisskóli, en um 250 nemendur eru skráðir í skólann nú í upphafi vetrar.
Uppbygging og vöxtur á Suðurnesjum hefur verið gríðarlegur og hefur íbúum á svæðinu fjölgað hlutfallsleg mest á landinu öllu síðustu ár. Ljóst er að ráðast þarf í töluverða uppbyggingu á innviðum á svæðinu til að mæta fjölgun íbúa. Til að styðja við þessa uppbyggingu og flýta fyrir þróun hennar munu Heimavellir og Ásbrú íbúðir færa Reykjanesbæ að gjöf fasteignina Skógarbraut 932, undir rekstur leikskóla. Húsnæðið er vel staðsett, í miðju íbúahverfi þar sem er stutt í alla þjónustu.
„Mikil eftirspurn er eftir húsnæði á þessu svæði og er það mikið hagsmunamál fyrir alla aðila að byggja upp innviði og tryggja þannig góða þjónustu fyrir íbúa svæðisins,” segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla.
Ingi Júlíusson, framkvæmdastjóri Ásbrúar íbúða tekur í sama streng. „Íbúum hefur fjölgað mikið á svæðinu síðustu ár og mun fjölga enn frekar á næstu árum. Áhersla okkar er að byggja upp fjölskylduvænt hverfi og með því að gefa húsnæði undir leikskóla erum við að leggja okkar lóð á vogaskálarnar við að byggja upp gott og heilbrigt samfélag.“
Heimavellir og Ásbrú íbúðir eiga og reka hátt í 1.000 íbúðir til samans á Ásbrú, í svokölluðum 900, 1100 og 1200 hverfum á Ásbrú.
„Nýi leikskólinn tekur til starfa þegar núverandi leikskólapláss að Ásbrú verða fullsetin,” segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, en tveir leikskólar eru fyrir á svæðinu, Háaleiti og Völlur. „Við munum nýta veturinn til að inrétta húsnæðið að þörfum barnanna svo hann geti hafið starfsemi haustið 2018. Ef þörf krefur munum við hins vegar reyna að hraða framkvæmdum eins og kostur er.”