Nýjast á Local Suðurnes

Fær ekki meðmæli frá fyrrum vinnuveitanda í kjölfar eineltismáls

Stofnandi Gospelkórs Suðurnesja, Elín Halldórsdóttir, segist hafa orðið fyrir grófu einelti af hálfu stjórnenda Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þegar hún var þar við störf á árunum 2005-2009, hún segist meðal annars nokkrum sinnum hafa beðið stjórnendur skólans um meðmæli, en ekki fengið.

“Ég hef nokkrum sinnum beðið um meðmæli frá stjórnendum Tónlistarskólans enda mjög margir sem voru ánægðir með mig og nutu góða af kröftum mínum en þeirri beiðni hefur verið synjað á hrokafullan máta. Þetta er eini vinnustaðurinn sem ég hef unnið á um ævina sem ég hef aldrei fengið meðmæli frá.” Segir Elín í grein sem birtist í Kvennablaðinu.

Elín fer ítarlega yfir málið í greininni, en þar kemur meðal annars fram að hún hafi kvartað vegna þessa til þáverandi starfsmannastjóra Reykjanesbæjar, en að lítið hafi verið gert í málinu.

“Ég fór með kvörtun til starfsmannastjóra Reykjanesbæjar eftir samtalið og kvartaði undan einelti á vinnustað. Ekkert var gert í málinu, nema aðstoðarskólastýran bað mig þó afsökunar en hegðunin breyttist ekkert. Ég er frekar tilfinninganæm og gefandi persóna og þar sem ég vissi að mikill meirihluti þeirra tuga nemenda og foreldra sem ég kenndi voru mjög ánægð fannst mér þetta allt mjög furðulegt.” Segir Elín.

Hótað lögsókn við starfslok

Þá greinir Elín frá síðustu dögum sínum í starfi fyrir Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í greininni, en þar greinir hún frá því að henni hafi verið hótað lögsókn þegar hún ákvað að hætta störfum fyrirvaralaust.

“Þegar kom að haustinu og ég sat undirbúningsfundi, upplifði ég sama kuldann og hrokann og það fyllti algjörlega mælinn þegar deildarstýran frækna hringdi í mig öskursímtal sem mér er ennþá í ljósu minni til að skamma mig fyrir að hafa ekki mætt á fund í grunnskólanum þar sem ég hafði kennt forskóla í í 4 ár til að setja nýjan starfsmann inn í starfið. Ég held ég hafi aldrei náð að segja henni að hún boðaði mig aldrei á þennan fund, slík var heiftin í minn garð. Mér er það algjörlega óskiljanlega að stjórnandi skuli hafa talið sig hafa rétt á að hringja í mig og öskra í símtólið eins og hann vildi drepa mann og annan. Þetta fyllti mælinn og ég hætti þarna fyrirvaralaust, orðin leið og þreytt á því að vera alltaf með kökkinn í hálsinum yfir framkomu stjórnenda í minn garð og orðin full af streitu og vanlíðan. Mér barst síðan í pósti harðort bréf frá stjórnendum þar sem mér var hótað lögsókn fyrir að hætta svona fyrirvaralaust.” Segir Elín.