Óþekktu milljarðamæringarnir kaupa fasteignir á Ásbrú fyrir 5 milljarða króna

Rekstrarhagfræðingarnir og viðskiptafélagarnir Arnar Þórisson og Þórir Kjartansson, eigendur fasteignafélagsins Íslenskar fasteignir ehf., hafa keypt íbúða- og atvinnuhúsnæði á Ásbrú fyrir um 5 milljarða króna. Kaupsamningur þess efnis var undirritaður í dag. Þetta kemur fram á vef mbl.is, en Suðurnes.net greindi frá því fyrstur fjölmiðla að þeir Arnar og Þórir skoðuðu möguleika á að kaupa fasteignir á Ásbrú í júní á þessu ári.
Ekki hefur borið mikið á þeim Arnari og Þóri, sem stundum eru kallaðir “Óþekktu milljarðamæringarnir”, þeir hafa þó komið víða við í atvinnulífinu undanfarin ár, en þeir eiga meðal annars elliheimili, hótel, starfsmannaleigu og stóra alþjóðlega ferðaskrifstofu.
Á vef mbl.is kemur fram að eignirnar sem nú voru seldar hafi farið í opið söluferli í vor, í frétt Suðurnes.net sem vitnað er í hér fyrir ofan kemur þó fram að viðræður Kadeco og Íslenskra fasteigna hafi staðið yfir mun lengur eða síðan seint á síðasta ári.
Húsnæði það sem Íslenskar fasteignir kaupa nú, er skráð á samtals 231 fastanúmer eða um 28% af heildarfermetrafjölda þess húsnæðis sem Kadeco hefur haft umsýslu með fyrir hönd íslenska ríkisins.