Nýjast á Local Suðurnes

“Ég þarf bara spark í rassinn til að halda mig við efnið”

Þessi fullyrðingu byggi ég á því að ég er vanur að finna kraft til að framkvæma ef ég finn fyrir skömm eða sektarkennd. T’imi er að renna út, ég gleymdi að greiða reikninga og ég finn hárin rísa um allan líkama. Ég fæ hnút í magann og ég finn eirðrleysi. Ég fæ þörf til að standa upp og hreyfa mig. Ég finn að ég er á lífi og glaðvakandi.

Haukur Hilmarsson - Fjármálaráðgjafi

Haukur Hilmarsson – Fjármálaráðgjafi

Þessi upplifun er þó eðlileg og í raun tengd taugakerfi líkamans. Líkaminn er kominn í stress-stöðu. Álagið að vera í skömm og tímapressu hefur vakið upp varnarviðbrögð sem kallað er baráttu- eða flóttaviðbrögð (e. Fight or flight response) og er milljóna ára gamalt varnarkerfi líkamans. Þegar líkaminn fær skilaboð um hættuástand býr hann sig undir að berjast eða flýja aðstæður. Hjartsláttur eykst til að auka blóðflæði. Adrenalín fer út í blóðrásina til að auka árvekni og skerpa hugsun. Líkaminn í orðsins fyllstu merkingu glaðvaknar. Líkaminn eykur blóðflæði út í hendur og fætur til að geta barist eða hlaupið og það útskýrir eirðarleysið sem hellist yfir okkur. Og til að auka blóðflæði og blóðmagn þá tekur líkaminn blóð frá meltingarfærunum. Það er ein ástæða þess að við missum matarlyst þegar við erum stressuð og einnig ástæða þess að við finnum til ógleði við mjög mikið álag. En líkaminn vill einnig aukið súrefni í lungun og opnar því fyrir öndunarveginn. Þegar það gerist finnum við til spennu í hálsinum. Við viljum loka ondunarveginum til að kyngja og borða en líkaminn vill opna. Þetta er kökkurinn sem við fáum í hálsinn.

Þetta getur verið upphafið af löngu og erfiðu stríði sem enginn sér eða finnur nema við sjálf. Á sama tíma og við viljum nota rökhugsun til að finna lausnir á vanskilunum þá finnum við um allan líkama yfirþyrmandi þörf til að hreyfa okkur. Hugurinn segir” OK, einbeitum okkur. Hvernig get ég reddað þessu vandamáli?” en tilfinningakerfið er ekki að hjálpa okkur að ná einbeitingunni. Við viljum stoppa og einbeita okkur en líkaminn er tilbúinn fara með okkur í 1500 metra spretthlaup, núna.

Staðan sem við erum í á þessari stundu er stress. Líkaminn hegðar sér núna nákvæmlega eins og við værum að  upplifa áföll eins og slys eða mikla sorg við dausfall nákomins ættingja. Munurinn felst þó aðalega í því að við sjáum þetta ekki sem áfall heldur sem skömm eða sektarkennd. Það getur leitt til þess að við leitum ekki aðstoðar heldur gerum okkar besta til að finna lausnirnar sjálf. Undir eðlilegum aðstæðum leitum við stuðnings en ef við skilgreinum tilfinningarnar sem skömm þá viljum við fela vandann. Það er síðan enginn hægðarleikur að fela vanda þegar við erum í stríði við líkama sem vill berjast og vera með læti. Í þessari stöðu verður ómögulegt að slaka á. Líkaminn er í viðbragðsstöðu og leyfir ekki svefn og meltingu. Við verðum andvaka. Og ég þekki fátt erfiðara en andvökunætur með fjárhagsáhyggjur. Það gefur mér margar klukkustundir einn með hugsunum mínum og áhyggjur um næstu skref.

Það getur því verið auðskilið hvers vegna við finnum skyndilausnir við skulda- og fjárhagsvanda. Peningalán getur nefnilega stoppað þessa líðan. Að fá lán í banka, verslun, hjá vini, ættingja eða leigusala gefur okkur þá tilfinningu að hættan sé liðin hjá. Okkur mun líða betur með aðstoð þessara ytri þátta en vellíðanin er skammvinn. Hún dugar fram að næsta gjalddaga. Þá má búast við að sama líðan taki við, jafnvel sömu óþægindi og andvökumætur allt þar til við fáum nýtt lán.

Aukin skuldsetning verður því skyndilausn til að forðast óþægilegu tilfinningar mínar.

Ef þú ert að upplifa þessa eða svipaða stöðu þá bíð ég upp á viðtöl og ráðgjöf um mannlegu hliðar fjármálanna. Ekki vera feimin við að leita nýrra lausna. Sendu mér póst á skuldlaus@skuldlaus.is og við finnum leiðir til að stoppa kvíðann.